BLOGGIÐ
18 nóvember 2005
Fyrsti áreksturinn
Á þriðjudaginn olli ég mínum fyrsta árekstri á rúmlega níu ára ferli sem bílstjóri. Ég ætla ekki að fara mikið útí hvernig óhappið orsakaðist en ég get þó sagt það að bíllinn sem ég keyrði á stoppaði algerlega að óþörfu á aðrein. Ég keyri aftan á bílinn, fæ verulegt sjokk og stíg út úr bílnum stuttu síðar. Kona á fimmtugsaldri í pels og risastór sólgleraugu stígur útúr bílnum sem ég hafði ekið á og horfir forviða á mig í stutta stund.
Kona: Af hverju keyrirðu á mig ?
Lindi: Það var nú ekki viljandi. Mér bara datt ekki í hug að þú myndir stoppa þegar það eru engir bílar að koma.
Kona: Ég er heiðarleg kona.
Lindi: (Hik) Jájá.
Kona: Sést mikið á bílnum mínum ?
Ég lít á bílinn.
Lindi: Já, það er einhver beygla og einhverjar rispur hérna.
Kona: Ég er sko heiðarleg kona.
Lindi: Já þú ert það örugglega.
Kona: Af hverju keyrðirðu á mig ?
Lindi: Ég ætlaði ekki að gera það. Fólk bara stoppar ekki yfirleitt þegar það eru engir bílar að koma. Mér kom bara ekki til hugar að þú myndir stoppa.
Kona: Ég skal bara láta þig vita það að ég er heiðarleg kona og ég ætla ekki að gera neitt mál úr þessu.
Við þetta bregður mér nokkuð þar sem kvikindið er á splunkunýjum bíl.
Lindi: Nú, ok.
Kona: Jæja, vertu sæll.
Hún fer síðan inn í bílinn og keyrir af stað. Ég fer inn í bíl og hugsa með mér hvað það hafi nú verið fínt að hún hafi bara farið. Stuttu síðar, þegar sjokkið er frá, átta ég mig á bláköldum veruleikanum: Kellingin var blllliiinndfull !!!
Hringdi að gamni í tryggingafélag til að fá upplýsingar um hver hefði verið í rétti ef maður hefði áttað sig á drykkju kvikindisins og gert lögreglu viðvart. Svarið sem ég fékk var að ég hafði verið í órétti. Þar með liggur ljóst fyrir að vegna sjokksins sem ég fékk náði ég að besta vandamálið, sem er mjög gott.