BLOGGIÐ

28 apríl 2005

Stress dauðans


ÞETTA er bara sorglega fyndið. Aumingja drengurinn.



27 apríl 2005

(Ó)hóflegt


Nýlega var ég að vafra um á netinu til að kynna mér hvaða netfyrirtæki byði besta verðið miðað við ýmsa þætti sem ekki verða upptaldir hér. Ég rak upp stór augu þegar ég sá Tilboðsleið 3 hjá Símanum. Hún hljómar svona:


Þú færð ADSL 6000 með ótakmörkuðu niðurhali**, öryggispakka og fimm netföngum á 5.790 kr. á mánuði.


Hmmm, ótakmarkað niðurhal og síðan eitthvað smátt letur hugsaði ég með mér. Renndi því augunum neðar á síðuna. Þar stóð:


**Síminn áskilur sér rétt til að takmarka þjónustu til rétthafa tengingar, sé hann uppvís að síendurteknu óhóflegu erlendu niðurhali sem hefur áhrif á tengingar annarra viðskiptavina. Síminn mun þá senda viðkomandi tölvupóst þar sem hann verður aðvaraður varðandi frekari niðurhali. Bregðist hann ekki við mun Síminn takmarka þjónustuna tímabundið.


Hvað er eiginlega verið að segja hérna ? Það er auglýst ótakmarkað erlent niðurhal en samkvæmt neðanmálsgreininni verður það að vera hóflegt. Hver er skilgreiningin á hóflegu og af hverju er hún ekki kynnt með tilboðinu ? Má fólk sem downloadar mikið virkilega búast við tölvuskeyti sem hljómar svona: "Þú hefur ekki gætt hófs í erlenda niðurhalinu þínu og því ætlum við að takmarka tengingu þína... en þú þarft samt að borga sama verð... auli!".


Af hverju auglýsa þeir ekki bara ótakmarkað hóflegt erlent niðurhal eða ótakmarkað erlent niðurhal í hófi ? Vegna þess að það hljómar heimskulega ? En er þessi framsetning Símans virkilega eitthvað gáfulegri ?



20 apríl 2005

Prófin eru byrjuð


Í upphafi annarinnar var tilkynnt að í faginu Fjármálamarkaðir yrði ekkert formlegt próf heldur heimapróf, sem er þannig að maður þarf að skrifa nokkrar "ör-ritgerðir", samtals 13 blaðsíður. Þetta þótti mér sérdeilis prýðilegt, og hugsaði ég með sjálfum mér á þeim tíma að þetta yrði ekkert mál.


Öðruvísi hefur farið en á horfðist. Samkvæmt áætlun hefði ég átt að vera búinn með þetta í dag, en ég hef því miður aðeins lokið 7,5 bls. Þetta frávik frá áætlaðri framleiðni minni í ritgerðasmíðum mun því koma beint niður á þjóð- og rekstrarhagfræðilærdómi. Ef einhver lumar á 2-3 bls. af samanburði á Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Bandaríkjanna má sá hinn sami endilega vera í bandi.



17 apríl 2005

Versta smáauglýsing allra tíma


Einstaka sinnum á ég það til að kíkja yfir smáauglýsingarnar í Fréttablaðinu. Það er þó yfirleitt ef blaðið er frekar þunnt og maður nennir ekki alveg að leggja það frá sér strax.


Í blaðinu í dag rakst ég á auglýsingu sem á vafalaust tilnefningu skilið í flokknum "Versta smáauglýsing allra tíma". Auglýsingin hjóðar svo:


Atvinna óskast
ÓSKA EFTIR vel launuðu starfi fyrir manninn minn. Vinnutími skiptir ekki máli enda maðurinn afar duglegur. Hann er auk þess samviskusamur, skemmtilegur og umfram allt fljótur að læra. Uppl. 8497471.


Þessi auglýsing er vægast sagt sorgleg og líklegast er þessi tiltekni maður ekki uppá marga fiska. Ennfremur var "vel launað starf" helvíti gott "touch" ofan á bjánaskapinn. Ef einhver svarar þessari auglýsingu verður það vægast sagt merkilegt.



08 apríl 2005

Reikni-ó-leikni


Bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið greina frá því í dag að þjálfari knattspyrnuliðs Chelsea fái 5,2 milljónir eða 5,9 milljarða íslenskra króna í árslaun. Hvernig geta menn bara breytt milljón í milljarð við gengisútreikninga án þess að einhverjar "aðvörunarbjöllur" fari í gang ?



06 apríl 2005

Svar við gátu gærdagsins


Gríðarlegt álag var á commentakerfinu í gær þannig að aðeins einn náði að koma svari sínu í gegn... nú eða þá að mikils áhugaleysis gætti gagnvart gátunni.


Anywho, til að svara gátunni þarf að átta sig á því hvert hlutfallið milli bókasafnsfræðinga og sölumanna er. Ef það eru meira en fjórum sinnum fleiri sölumenn en bókasafnsfræðingar eru meiri líkur á að Jón einhleypi sé sölumaður. Ég býst passlega við því að það séu mikið meira en 4 sölumenn á hvern bókasafnsfræðing og því eru (mun) meiri líkur á því að Jón sé sölumaður.


Að lokum vill ég kunngjöra ánægju mína vegna niðurstöðu prófs, sem ég bloggaði um nýlega rétt eftir að ég hafði gengið út úr því. Bjóst ég við ca. 4 í einkunn en niðurstaðan varð 7,5, sem setur mig í topp 10 hópinn. Það væri því sannkallaður gleðidagur í dag, ef ég þyrfti ekki að fara að vinna í fyrirlestri langt fram á nótt, sem ber þann skemmtilega titil : Áhrif framkvæmdanna fyrir austan á ýmsar hagstærðir. Össsss... !!!



05 apríl 2005

Gáta dagsins


Gefið er að 80% bókasafnsfræðinga eru feimnir en aðeins 20% sölumanna.


Jón er fertugur. Hann er einhleypur og á kött. Hann er líka óttalega feiminn. Hvort eru meiri líkur á því að Jón sé bókasafnsfræðingur eða sölumaður ?



02 apríl 2005

Meira össs...


Atburðir sem áttu sér stað í gærkvöldi ollu því að bloggið mitt hér að neðan er orðið gömul lumma og engin frétt lengur. Skrifaði það rétt fyrir eitt þannig að þetta var heitt í svona 5 klukkutíma.


Var í Stærðfræði II prófi í morgun og held ég að einkunin verði sú lægsta sem ég hef nokkurn tímann fengið á minni stuttu háskólagöngu, og það eftir að hafa verið nýbúinn að vera hæstur í Fjármál II prófi. Fuss og svei. En þá er ekkert annað að gera en að drekkja sorgum sínum með taumlausri drykkju og óspektum í kvöld.



01 apríl 2005

Feit skita


Nýr fréttastjóri Ríkisútvarpsins drullaði lengra uppá bakið á sér en ég hélt að væri mögulegt í dag. Í hádegisfréttum var hann í viðtali og hljómaði það nokkurn veginn svona:


Fréttamaður: Hefurðu átt fund með formanni útvarpsráðs nýlega ?
Auðunn: Nei, ekki nýlega.
Fréttamaður: En nú hef ég öruggar heimildir fyrir því að þið hafið átt fund í hádeginu í gær. Ertu þá að neita því að þú hafir hitt formann útvarpsráðs í gær ?
Auðunn: Uuu, ég man bara ekki nákvæmlega hvenær þessi fundur var haldinn.


Síðan kom eitthvað mjög vandræðalegur kafli. Lok viðtalsins hljómuðu einhvern veginn svona:


Fréttamaður:
En geturðu neitað fyrir það að þessi fundur hafi verið haldinn í gær ?
Auðunn: Nei, það ætla ég ekki að gera.
Fréttamaður: En nú neitaðir þú því í upphafi viðtalsins að þessi fundur hafi verið haldinn nýlega.
Auðunn: Þessi fundur var trúnaðarmál.


Össs, nú líst mér ekki á blikuna.