BLOGGIÐ

31 mars 2005

Lengsta bloggið til þessa


Þegar ég byrjaði að blogga ákvað ég að (1) Hafa öll innslög frekar stutt og (2) Vera aldrei of alvarlegur. Í dag verður þó gerð undantekning.


Einn hluti Fréttablaðsins sem ég les nánast alltaf eru Bakþankar. Skrif Guðmundar Steingrímssonar finnst mér þó sérstaklega standa uppúr, því oftar en ekki hittir hann naglann á höfuðið (og þá sérstaklega um daginn með greininni um að maður þyrfti ekki alltaf að vera málefnanlegur). Ekki er þó sömu sögu að segja um fyrrum límhausinn Jón Gnarr.


Skrif hans undanfarið hafa yfirleitt verið sérdeilis leiðinleg. Tal um persónulegar trúarhugmyndir og endalausar afsakannir á fortíð sinni er eitthvað sem ég vil helst ekki lesa. Samt geri ég það nánast alltaf, aðeins til að blöskra yfir kjánaskapnum.


Grein Jóns í dag, sem ber titlinn "ÓLÁN", var þó sérstaklega slök og undirstrikar að fólk sem hefur ekki vit á áhrifum ýmissa efnahagsstærða á að kynna sér málið til hlítar áður en það skrifar greinar sem varða þau í blöðin.


Í grein dagsins skrifar Jón um skoðanir sínar á íbúðarlánum og "hvað einstaklingur hefur borgað mikið þegar upp er staðið", eins og Jón orðar það. Hann fór að reikna og komst að því að þegar þú hefur borgað upp 20 milljón króna lán til 40 ára hefurðu á endanum borgað tæpar 88,5 milljónir miðað við 3,5% verðbólgu næstu 40 árin. Seinna skrifar hann: "Ef verðbólgan myndi hækka upp í 10% þá mundi heildarupphæði hækka upp í 477.368.981. Vá!". Það sem Jón veit ekki er að þetta "Vá!" hjá honum er algerlega óviðeigandi þar sem verðbólgan kemur málinu ekkert við.


Gefum okkur að verðbólgan verði 10% næstu 40 árin sem þýðir að verðlag tvöfaldast á rúmlega 7 árum. Vísitalan hefur því í lok greiðslutímabilsins hækkað um rúm 4500%. Í samræmi við hækkun greiðslnana vegna verðbólgu ættu raunlaun einstaklingsins í "versta" falli að haldast stöðugar (þannig að hagvöxtur er enginn eða einstaklingurinn fær ekki brot af hagvextinum í sinn hlut. Það er þó afar óraunhæft.). Af þessu leiðir að allar framtíðargreiðslur á verðlaginu í dag eru innborgun á höfuðstól og vextir út allt tímabilið (þar sem raunlaun, eins og áður sagði, haldast a.m.k. föst). Hinsvegar er mun líklegra að raunlaun einstaklingsins hækki og þ.a.l. verði greiðslubyrðin í hlutfalli við laun lægri eftir því sem á líður.


Ástæða þess að ég skrifa þetta langa innslag er sú að eins og máltækið segir "Oft leiðir blindur blindann". Það er eflaust mikið af fólki sem hefur lesið þessa grein og talið að þetta hljóti allt að vera rétt hjá honum. Það hugsar því með sér í blindni: "Vá!".


Þessi grein Jóns ber nafn með rentu, því að það er svo sannarlega mikið ólán að slík grein skuli birtast í blaði sem nær allir lesa.29 mars 2005

Videoleiguþvæla - Episode III : Return of Lindi


Frá Intrum bárust mér þær fréttir að krafa sú sem lögð var á hendur mér hefur verið afturkölluð og málið látið niður falla. Lesendur missa því af æsispennandi réttarhaldafréttaflutningi.24 mars 2005

Nýtt heimsmet Íslendinga


Smáborgarskapur Íslendinga sprengdi alla mæla þegar RÚV og Stöð 2 var með beina útsendingu frá lendingu Bobby Fischers á Reykjavíkurflugvelli núna kl. 23. Ég verð einnig að viðurkenna að mér finnst þetta mál allt frekar "fiskugt" (og þar með set ég nýtt heimsmet í kjánalegum orðaleikjum).16 mars 2005

Tilkynning


Bloggstífla (e. blogger´s block) hrjáir mig.04 mars 2005

Jón spæjó


Hann var útsmoginn og snar, engin vissi hver hann var (durududunn klikk klikk) Jón spæjó.